Af hverju líður mér svona?
- Björk Ben

- Mar 28, 2022
- 2 min read

Í gær vaknaði ég þreytt, ég hafði kannski farið örlítið of seint að sofa miðað við hvernær ég þurfti að vakna. Ég fann innra með mér að mér leið ekki vel, ég fann pirring en áttaði mig ekki á hvaðan hann kom. Ég reyndi að fela hann fyrir börnunum mínum sem áttu hann auðvitað ekki skilið.
Eftir því sem leið á morguninn varð pirringurinn meiri. Kærastinn minn ætlaði að hitta mig í hádeginu en var seinn, ég fór að hugsa að kannski væri hann að ,,dissa mig" og ég upplifði höfnun. Hann kom svo 10 mín. seinna, ég hélt andliti og sagði ekkert, en tilfinningin fór ekki.
Eftir hádegið hélt hún áfram að ágerast og mér fannst ég vera við það að springa, springa úr pirringi.
Mig langaði ekki að særa fólkið mitt svo ég hélt í mér eins og ég gat.
Ég fann fyrir óöryggi, að ég væri alein og ég væri ekki að standa mig. Ég fann ég var að fara að rífa mig niður og auka þannig á vanlíðanina. ,,Þú ert ekki þess virði, þú getur þetta ekki, þú ert ekki nógu góð." eru setningar sem vildu óma.
En ég ákvað að fara í göngutúr á uppáhaldsstaðinn minn. Fara í langan góðan göngutúr. Ég grét á meðan ég gekk í fjörunni og hlustaði á öldurnar berja. Ég leyfði mér að vera ómöguleg, ég leyfði mér að vera pirruð, ég leyfði mér að vera óörugg, finnast mér hafnað. Ég leyfið tilfinningunum að koma og vera hjá mér og skolast svo út á haf með öldunum.
Ég kom heim og leið miklu betur. Kvöldið var notalegt með börnunum mínum og ég fór fyrr að sofa, þakklát fyrir að hafa losað um þessar tilfinningar. Þakklát fyrir að hafa ekki sært einhvern í kringum mig til að næra vanlíðan mína - Það hefði verið svo auðvelt.

Allir upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni að þeir séu ekki nógu góðir á einhvern hátt, en meðvitað vitum við að við erum ekkert verri en aðrir og því afneitum við þessum tilfinningum og reynum að berjast á móti þeim eins og við getum. Við reynum að loka þær úti. Því þær eru erfiðar og okkur finnst þær vera vondar við okkur.
En við megum ekki loka á þær. Við megum ekki hræðast þær. Við þurfum að upplifa þær. Við þurfum að gefa okkur sjálfum rými til að upplifa þær á öruggann hátt og leyfa þeim að koma, vera og fara, þannig heilum við okkur og losum okkur á endanum við áhrifin af þeim.



Comments